top of page
DadeyProfile.jpg

Daðey Albertsdóttir

Daðey Albertsdóttir sálfræðingur, sinnir greiningu og meðferð á sálrænum vanda hjá börnum og ungmennum. Hún sinnir m.a. meðferð við kvíða, lágu sjálfsmati og almennri kvíðaröskun. Einnig sinnir hún ráðgjöf til foreldra varðandi kvíða og hegðunarvanda.

 

Hugræn atferlismeðferð

Daðey beitir gagnreyndum aðferðum við greiningu og meðferð og styðst fyrst og fremst við hugræna atferlismeðferð (HAM).  Hún nýtir gagnreynd mælitæki til að mæla árangur meðferðar.

 

Handleiðsla

Daðey sækir reglulega handleiðslu og nýtur ráðgjafar frá sérfræðingum og samstarfsfólki á mismunandi sviðum geðheilbrigðisþjónustu.

 

Menntun

Árið 2012 lauk Daðey Bsc prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði í nokkur ár sem  atferlisþjálfi og sérkennslustjóri hjá leik- og grunnskólum Hjallastefnunnar þar sem hún fékk víðtæka reynslu í vinnu með börnum með ýmiskonar frávik og hegðunarvanda. Vorið 2020 útskrifaðist hún með Msc gráðu í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Í náminu hlaut hún fjölbreytta klíníska reynslu undir handleiðslu reyndra sálfræðinga á þremur ólíkum stöðum. Fyrst í þunglyndis- og kvíðateymi Landspítalans þar sem hún sinnti m.a. greiningu og meðferð við lágu sjálfsmati og þunglyndi. Því næst á Heilsugæslunni Sólvangi þar sem hún öðlaðist reynslu í greiningarvinnu og vinnu með börnum og ungmennum með þunglyndi og kvíða. Að lokum á Litlu Kvíðameðferðarstöðinni þar sem hún sinnti kvíðameðferð barna og ráðgjöf til foreldra. Hún hefur því öðlast þó nokkra þjálfun og reynslu af notkun hugrænnar atferlismeðferðar. Hún hefur einnig sótt ýmis námskeið, vinnustofur og fengið að sitja málstofur framúrskarandi fræðimanna um greiningu og meðferð sálræns vanda. Daðey hefur sömuleiðis lokið bóklegum hluta náms sem veitir séfræðivottun í atferlisgreiningu (Board Certified Behaviour Analyst Examination). Daðey vinnur einnig á Þroska- og hegðunarstöð þar sem hún sinnir greiningu, ráðgjöf og fræðslu vegna taugaþroskaraskana og annarra erfiðleika í hegðun eða líðan.

bottom of page