top of page

Erum við að reka saman fyrirtæki eða ástarsamband?

Höfundur : Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.



Ástin er það afl sem gerir pörum kleift að styðja hvort annað, auka hamingju og stofna til fjölskyldu. En í sjálfu sér skapar hún ekki persónulega færni og getu til þess að láta hana vaxa og dafna. Til að þróa hamingjuríkt samband þarf fólk að geta sýnt hlýju, nærgætni, örlæti, áreiðanleika, tryggð og skuldbindingu. En á sama tíma að hafa þrautseigju og geta fyrirgefið.


Pör sem koma til mín í fjölskyldumeðferð nefna oft að þau upplifi sig vera að reka saman fyrirtæki en séu ekki í ástarsambandi. Slíkar aðstæður geta verið einmanalegar og fólk upplifir sig vera að missa af mikilvægum lífsgæðum eins og að eiga einhvern að sem maður getur deilt öllu með, hlýju, nánd og kynlífi.


Stundum upplifir annar aðilinn meiri óánægju við þessar aðstæður á meðan hinn upplifir að þetta hafi þróast með vilja beggja og hafi verið þegjandi samkomulag vegna mikils álags hjá parinu. Því getur það komið öðrum aðilanum á óvart að heyra maka sinn lýsa að sér hafi liðið illa lengi og sé með óuppfylltar þarfir. Þess vegna er mikilvægt fyrir einstaklinga í parsambandi að sofna ekki á verðinum, né taka hvort öðru sem sjálfsögðum hlut heldur ræða reglulega saman um sambandið sitt. Það er vinna að vera í góðu og gefandi ástarsambandi og það dafnar ekki að sjálfu sér.


Vertu forvitinn um makann þinn, sýndu honum áhuga og hlýju, komdu honum reglulega á óvart, daðraðu við hann, láttu hann vita hvað þú kannt að meta við hann, spurðu hann hvaða þrár og langanir hann hefur og deildu þínum með honum. Gagnlegt er fyrir pör að ræða reglulega saman og fara stefnumót, alla vega einu sinni í mánuði, prófa eitthvað nýtt, fara saman í ræktina, gönguferð eða jafnvel borða saman í hádeginu.


En ef fólk á erfitt með að ræða saman getur hugræn atferlismeðferð komið að gagni. Aðferðin er hönnuð til að hjálpa pörum að þjálfa upp þetta samtal sem er lykillinn að því að pör geti átt góð samskipti og fengið ævilangt verkfæri. Aðferðin aðstoðar parið við að gera hugsun þeirra skýrari og þá um leið samskiptin með það að leiðarljósi að fyrirbyggja að gjá myndist á milli þeirra.


Þessi pistill birtist fyrst í Mannlíf þann 12. júní 2019

303 views

Comentarios


bottom of page