top of page

Krefjandi lífsreynsla

Höfundur: Þóra Sigfríð Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.

Gjaldþrot, skilnaður, framhjáhald eða dauðsfall

Gjaldþrot, skilnaður, framhjáhald eða dauðsfall

Fæstir komast í gegnum lífið án þess að þurfa takast á við krefjandi lífsreynslu. Lífsreynslu sem nánast kollvarpar því hvernig við lifum lífinu. Þetta geta verið atburðir eins og það að verða gjaldþrota, komast að framhjáhaldi maka og þá getur skilnaður verið algjört skipsbrot. Allt í einu er allt sem fólk hafði séð fyrir sér í uppnámi. Spurningar eins og hvað verður nú um vinina? Hvernig verða samskipti við tengdafjölskyldu? Eða einfaldlega hvernig kemst ég í gegnum þetta?


Einföld ráð á erfiðum tímum

Slíkir tímar reyna verulega á okkur og hafa óhjákvæmilega áhrif á líðan okkar og lífsgæði. Daglegt líf fer oft úr skorðum en það er mikilvægt að reyna halda áfram þessu venjubundna lífi. Það eru litlu atriðin sem skipta máli, eins og að hreyfa sig, borða reglulega og ekki síst gæta að svefni. Þetta gæti hljómað sem einfalt ráð en allir sem hafa farið í gengum erfiða tíma vita að það er meira en að segja það að framfylgja þessu.

Hlúð að líkama og sál

Ef líkaminn okkar fær ekki næringu, hvíld og örvun, þá verður allt hitt sem er svo mikilvægt, of erfitt. Ef grunnatriðin eru í lagi þá verður auðveldara að sinna öðrum daglegum athöfnum eins og að mæta í vinnu eða skóla, og vera í samskiptum við annað fólk. Við vitum að það að vera í samskiptum við aðra er eitt það besta sem fólk getur gert til að ná sér í kjölfar krefjandi lífsreynslu. En vandinn er að í slíkum aðstæðum þá á fólk það til að einangra sig og langar ekkert sérstaklega til að vera í samskiptum við aðra. Oft finnur fólk fyrir skömm, finnst reynslan sem það er að ganga í gegnum vera niðurlægjandi og svo framvegis.

Að þiggja stuðning

En þegar lífið reynir á mann á þennan hátt er gott að þiggja allan þann stuðning sem býðst, hvort sem það er frá fjölskyldu eða vinum. Flestir vilja styðja við fólkið sitt en vita ekki alltaf hvernig á að gera það, enda eru þarfir fólks mismunandi. Sumum getur þótt gott að ræða það sem er að gerast en aðrir vilja fá „frí“ frá erfiðleikum og ræða eitthvað allt annað.

Fagleg aðstoð

Fagleg aðstoð getur einnig verið nauðsynleg ef vanlíðan er mikil. Þá ætti að leita til heilbrigðisstarfsfólks sem þekkir til viðkomandi vanda og býður upp á gagnreyndar meðferðir.


Meðferðarúrræði við sálrænum vanda eru mörg en fá þeirra eru gagnreynd. Það að meðferð sé gagnreynd þýðir að rannsóknir hafa sýnt fram á að meðferðin virki í raun og veru. Sem dæmi má nefna hugræna atferlismeðferð sem er gagnreynd meðferð við ýmsum vanda svo sem kvíða og þunglyndi.


Þessi pistill birtist upphaflega í Mannlíf, 14. maí 2019;

391 views

Коментарі


bottom of page