top of page

Ábyrgðarlaust að lofa lausn sem er ekki fullrannsökuð - Gagnreynd meðferð

Að und­an­förnu hef­ur ver­ið áber­andi um­ræða um hug­víkk­andi efni sem með­ferð við ýms­um geð­ræn­an vanda. Sú með­ferð er enn á rann­sókn­arstigi og er ekki gagn­reynd með­ferð. Það er al­var­legt að veita með­ferð sem hef­ur ekki ver­ið sam­þykkt af yf­ir­völd­um.


Sérfræðingar hjá Domus Mentis Geðheilsustöð munu skrifa reglulega pistla í Heimildina um ýmislegt sem tengist geðheilbrigði og lífsánægju fólks. Í þessum nýja miðli er meðal annars lögð áhersla á greiningu á málefnum líðandi stundar og ber þessi fyrsti pistill ef til vill keim af því.


Geðheilbrigðismál og aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu hefur verið töluvert til umræðu síðustu misserin og ljóst að eftirspurn eftir slíkri þjónustu er mikil. Þrátt fyrir að töluvert hafi verið gert til að efla geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars með stofnun geðheilsuteyma og aukningu á stöðugildum sálfræðinga hjá heilsugæslustöðvum, eru enn langir biðlistar eftir þjónustunni.


Að glíma við geðrænan vanda, svo sem þunglyndi, kvíða eða áfallastreituröskun, er síst minna íþyngjandi en að glíma við annan heilsufarsvanda. Þegar fólk finnur til, þá leitar það allra leiða til að ná bata. En stundum er eins og það gildi önnur lögmál um geðheilbrigðisþjónustu en aðra heilbrigðisþjónustu. Hér er þá bæði átt við kröfur sem gerðar eru til þeirra sem bjóða meðferð við geðrænum vanda, og þær kröfur sem eru gerðar til meðferðarinnar sjálfrar.


Það er enginn skortur á aðilum sem bjóða fram þjónustu sína við víðtækum og alvarlegum geðrænum vanda og starfstitlar þeirra oft villandi. Margir þessara aðila eru ekki með löggilt starfsheiti, teljast ekki til heilbrigðisstarfsfólks og starfa þar af leiðandi ekki undir eftirliti Landlæknis. Þeir þurfa því ekki að sýna fram á að menntun þeirra og þjónusta uppfylli ákveðin skilyrði. Oft er meðferðin sem boðið er upp á ekki gagnreynd, sem þýðir að rannsóknir hafa ekki sýnt fram á gagnsemi meðferðarinnar.

Það getur verið erfitt fyrir fólk að átta sig á öllum þessum fræðingum sem bjóða upp á slíka þjónustu en í því sambandi má benda á heimasíðu Landlæknis þar sem fletta má upp hvaða starfsstéttir teljast til heilbrigðisstarfsfólks. Jafnframt má fletta upp einstaka meðferðaraðilum og ganga úr skugga um að viðkomandi sé með tilskild leyfi embættisins.


Meðal þeirra stétta sem teljast til heilbrigðisstétta og bjóða upp á gagnreyndarmeðferðir við geðrænum vanda, eru geðlæknar og sálfræðingar. Geðlæknar hafa lokið almennu læknisnámi og sérhæft sig í greiningu og meðferð geðsjúkdóma. Þeir hafa leyfi til að framvísa geðlyfjum og margir þeirra veita einnig samtalsmeðferð. Sálfræðingar eru að minnsta kosti með fimm ára háskólanám að baki. Í því námi er meðal annars lögð áhersla á víðtæka þekkingu á geðheilsu, varðandi bæði greiningar og meðferð. Ýmsar aðrar löggiltar stéttir bjóða upp á aðrar gagnreyndar viðtalsmeðferðir. Félagsráðgjafar bjóða til dæmis upp á gagnreyndar viðtalsmeðferðir við ýmsum vanda sem getur komið upp í samskiptum fjölskyldna. Félagsráðgjafar eiga að baki fimm ára háskólanám þar sem áhersla er meðal annars á aukna þekkingu á ofbeldi og vanrækslu í fjölskyldum og um úrræði velferðarkerfisins. Fleiri stéttir mætti nefna en aðalatriði er að starfsheiti þeirra eru löggild og þær heyra undir Landlæknisembættið, sem þýðir að það gilda ákveðnar reglur um störf þeirra auk siðareglna hverrar starfsstéttar. Ef þessir sérfræðingar brjóta á skjólstæðingum sínum á einhvern hátt getur skjólstæðingur því leitað réttar síns hjá Landlæknisembættinu.


„Slíkar yfirlýsingar eru fullkomlega ábyrgðarlausar“

Gagnreyndar sálfræðimeðferðir, svo sem hugræn atferlismeðferð, hafa ítrekað sannað gildi sitt þegar þarf að takast á við geðheilbrigðisvanda, svo sem kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun. Í klínískum leiðbeiningum landlæknis er mælst til þess að gagnreynd sálfræðimeðferð sé fyrsta inngrip er takast á við slíkan vanda. Fleiri meðferðir við geðrænum vanda eru gagnreyndar, til dæmis ákveðnar lyfjameðferðir sem geðlæknar hafa að öllu jöfnu umsjón með.


Að undanförnu hefur verið áberandi umræða um hugvíkkandi efni sem meðferð við ýmsum geðrænum vanda. Sú meðferð er enn á rannsóknarstigi og er ekki gagnreynd meðferð. Ýmsir aðilar hafa stigið fram og talað fyrir gagnsemi þessarar meðferðar og jafnvel gefið í skyn að hér á landi fari slík meðferð fram. Slíkar yfirlýsingar eru fullkomlega ábyrgðarlausar þar sem enn er verið að rannsaka hvort aðferðin standi undir væntingum og hugsanlegar aukaverkanir. Það er mjög alvarlegt ef „sérfræðingar“ eru að beita aðferð sem hefur ekki farið í gegnum öll rannsóknarstig og verið samþykkt af viðeigandi yfirvöldum.


Við vitum hversu mikilvægt það er að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu, röng meðhöndlun getur valdið óbætanlegum skaða. Það sama á við um geðheilbrigðisvanda, röng meðferð getur svo sannarlega valdið skaða. Við ættum því ekki að sætta okkur við að kröfur til þeirra sem veita geðheilbrigðisþjónustu og kröfur til meðferða sem er beitt, lúti ekki sömu lögmálum og önnur heilbrigðisþjónusta.


Höfundur / Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni í janúar 2023


84 views
bottom of page